Lífið

Málþing í minningu Jörundar Hilmarssonar

MYND/Stefán

Íslenska málfræðifélagið og Málvísindastofnun Háskóla Íslands gangast fyrir málþingi um orðsifjafræði og söguleg málvísindi í minningu dr. Jörundar Hilmarssonar, málfræðings og heiðursræðismanns Litháens á Íslandi, á morgun í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.

Jörundur var dósent í málvísindum við Háskóla Íslands og hefði orðið sextugur hinn 15. mars síðastliðinn en hann lést langt um aldur fram 13. ágúst 1992, aðeins 46 ára að aldri.

Fram kemur í tilkynningu frá aðstandendum málþingsins að Jörundur hafi lagt stund á indóevrópska samanburðarmálfræði við Óslóarháskóla og lokið doktorsprófi í þeirri grein frá háskólanum í Leiden í Hollandi 1986. Í málvísindanámi sínu lagði Jörundur sig meðal annars eftir litháísku, og stundaði meðal annars nám í Vilníus í Litháen 1971-72 og kom þangað oft eftir það.

Þegar Íslendingar höfðu viðurkennt sjálfstæði Litháa árið 1991 skipaði Vytautas Landsbergis Jörund Hilmarsson heiðursræðismann Litháens á Íslandi í þakklætisskyni fyrir störf Jörundar í þágu Litháens.

Á ráðstefnunni á morgun munu níu málfræðingar - allir samstarfsmenn Jörundar eða nemendur - halda erindi um orðsifjafræði eða söguleg málvísindi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×