Innlent

15 mánuðir fyrir rán í apóteki

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjaness í dag dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi fyrir rán í apóteki í Kópavogi í febrúar síðastliðnum. Maðurinn réðst inn í lyfjaverslunina Apótekarann að Smiðjuvegi vopnaður hnífi og með andlit sitt hulið, fór inn fyrir afgreiðsluborðið og ógnaði starfsmönnunum.

Heimtaði hann að starsmennirnir létu hann fá lyfin contalgin og rítalín en hann komst á brott með níu pakka af rítalíni. Maðurinn var handtekinn fimm dögum eftir ránið og neitaði þá sök. Honum var sleppt en hann aftur handtekinn daginn eftir á hóteli í Reykjavík og var hann þar með hnífinn sem notaður var í ráninu. Í kjölfarið játaði hann á sig ránið. Bar hann því við að hann væri háður rítalíni og hefði verið í lyfjaneyslu í 12 ár.

Maðurinn á að baki nokkurn sakaferil, þar á meðal önnur rán, og var litið til þess við ákvörðun refsingar en til refsilækkunar var talið að hann hefði játað brotið skýlaust og reynt að vinna bug á lyfjafíkn sinni. Þótti því 15 mánaða dómur hæfilegur auk 150 þúsund króna sakarkostnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×