Erlent

Þriggja daga þjóðarsorg vegna námuslyss

Nú er orðið ljóst að enginn komst lífs af þegar gassprenging varð í pólskri námu í fyrrakvöld. Búið er að finna lík þeirra tuttugu og þriggja námumanna sem fóru þangað niður.

Lech Kaczynski, forseti Póllands, hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg vegna þessa versta námuslyss í landinu í þrjá áratugi. Það varð á rúmlega eins kílómetra dýpi í gamalli kolanámu nærri bænum Ruda Slaska í sunnanverðu Póllandi.

Mikið metangas hafði safnast þar fyrir og þegar 23 námumenn fóru þangað niður í fyrrakvöld til að ná í búnað sem skilinn hafði verið eftir þegar námunni var lokað í vor komst neisti í gasið svo úr varð mikil sprenging.

Lík sex þeirra náðust upp í fyrrinótt en björgunaraðgerðum var þá hætt um tíma vegna ótta um að önnur sprenging gæti orðið. Í morgun kom svo í ljós að þeir sautján sem eftir voru höfðu einnig látist í sprengingunni. Hún var svo öflug að stór hluti námuganganna hrundi og talið er að hitinn í henni hafi farið upp í þúsund gráður.

Ættingjar mannanna sem höfðu komið sér fyrir við gangamunnann, kveikt á kertum og beðið fyrir ástvinum sínum urðu að vonum fyrir miklu áfalli þegar fréttirnar bárust. Opinber rannsókn á slysinu hefur þegar verið fyrirskipuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×