Erlent

Óttast áframhaldandi víg

Líbanskir stjórnmálamenn óttast að fleiri víg muni fylgja í kjölfar morðsins á Pierre Gemayel iðnaðarráðherra í gær. Þriggja daga þjóðarsorg hófst í landinu í morgun.

Rannsókn á morðinu á Gemayel, sem var einn af leiðtogum kristinna í landinu, er þegar hafin en hann var skotinn til bana um hábjartan dag í einu af úthverfum Beirút í gær. Ekkert er vitað um hverjir standa á bak við tilræðið en andstæðingar Sýrlendinga telja augljóst að þeir hafi verið að verki enda hafi þeir áður gerst sekir um slíkt.

Gemayel verður jarðsettur á morgun en hann var borinn í kistu sinni um heimabæ sinni Bekfaya í dag. Hundruð bæjarbúa fylgdu sorgmæddir eftir, sumir fleygðu grjónum yfir kistuna sem var sveipuð fána falangista, fylkingarinnar sem afi Gemayels stofnaði á sínum tíma. Dagblaðið Daily Star segir falangista hafa ráðið ráðum sínum í gær og að þolinmæði þeirra væri senn á þrotum.

Hljóðið í líbönskum stjórnmálamönnum hefur verið dökkt í morgun. Walid Jumblatt, leiðtogi drúsa, vandaði Sýrlendingum ekki kveðjurnar og kvaðst óttast að þeir myndu koma fleirum fyrir kattarnef til að grafa enn frekar undir ríkisstjórninni. Líf hennar hangir á bláþræði eftir að sex ráðherrar sögðu sig úr henni í síðustu viku til að mótmæla stofnun dómstól á vegum Sameinuðu þjóðanna sem rétta á yfir grunuðum morðingjum Rafiks Hariri fyrrverandi forsætisráðherra. Öryggisráðið samþykkti í gær fyrir sitt leyti stofnun slíks dómstóls

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×