Erlent

Segir Sýrlendinga standa á bak við morðið á Gemayel

Mynd frá CNN af bíl Pierres Gemayels eftir árásina í dag.
Mynd frá CNN af bíl Pierres Gemayels eftir árásina í dag. MYND/AP

Saad Hariri, þingforseti í Líbanon og sonur Rafiks Hairis, sem myrtur var í Beirút fyrir tæpum tveimur árum, sakar sýrlensk stjórnvöld um að standa á bak við morðið á Pierre Gemayel, iðnaðarráðherra Líbanons. Byssumenn skutu Gemayel til bana í árás á bílalest hans í úthverfi kristinna manna í Beirút fyrr í dag.

Hariri sagði enn fremur á blaðamannafundi að Sýrlendingar vildu drepa hverja einustu frjálsu manneskju. Sýrlensk stjórnvöld segjast hins vegar fordæma morðið samkvæmt opinberu fréttastofunni SANA í Sýrlandi.

Peirre Gemayel, sem var leiðtogi kristinna Falangista í landinu, hefur verið í hópi hörðustu andstæðinga Sýrlandsstjórnar. Talið er líklegt að morðið muni enn auka enn á pólitískar deilur í Líbanon milli andstæðinga Sýrlandsstjórnar sem hafa meirihluta á líbanska þinginu og stuðningsmanna stjórnvalda í Damaskus, en þar fara Hizbolla-samtökin í Líbanon fremst í flokki.

Nýverið sögðu sex ráðherrar sig úr ríkisstjórn Fouads Siniora, forsætisráðherra Líbanons, vegna deilna um áhrif Hizbolla-liða í ríkisstjórninni, en Siniora sagði fyrr í dag að ríkisstjórnin gæti starfað áfram. Hins vegar hefur dauði Gemayels í för með sér að ef tveir ráðherrar til viðbótar hverfa úr embætti er ríkisstjórnin fallin.

Bandaríkjastjórn hefur þegar tjáð sig um morðið og segir það hryðjuverk. „Þetta er sorglegur dagur fyrir Líbanon og morðið er mikið áfall. Við lítum á það sem hryðjuverk og jafnframt sem ögrun," sagði Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×