Erlent

Tony Blair á ferð um Afganistan

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, ávarpar breska hermenn í Helmand-héraði í Suður-Afganistan í morgun.
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, ávarpar breska hermenn í Helmand-héraði í Suður-Afganistan í morgun. MYND/AP

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði í dag að breskir hermenn væru ekki á heimleið frá Afganistan og að herinn yrði í landinu þar til friði og ró yrði komið á þar.

Blair er nú í heimsókn í Afganistan og eftir fund með Hamid Karzai, forseta landsins, í Kabúl sagði hann að afganska þjóðin ætti rétt á að búa við lýðveldi í stað þess að þola árásir hryðjuverkamanna og kúgun talibana. Bretar myndu áfram leggja sitt af mörkum til uppbyggingar og aukins öryggis í landinu.

Ofbeldi í Afganistan hefur aukist töluvert á undanförnum mánuðum og uppreisnarmenn talibana sótt í sig veðrið, ekki síst í suðurhluta landsins. Blair heimsótti hermenn á þeim slóðum og hrósaði þeim fyrir störf sín. Alls hafa 38 breskir hermenn fallið í átökum í Afganistan það sem af er árinu en um sex þúsund Bretar berjast nú gegn uppreisnarmönnum í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×