Erlent

Liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi

Alexander Litvinenko.
Alexander Litvinenko. MYND/AP

Breska lögreglan rannsakar hverjir eitruðu fyrir fyrrverandi forystumanni rússnesku leyniþjónustunnar sem leitaði hælis í Bretlandi fyrir sex árum. Hann liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi.

Alexander Litvinenko er 44 ára. Hann var njósnari hjá KGB og síðar öryggissveitum Rússa. Hann hefur verið ötull gagnrýnandi Pútíns Rússlandsforseta. Hann hefur sakað fyrrverandi starfsbræður sína um óhæfuverk sem síðan hafi verið klínt á téténska aðskilnaðarsinna og að hafa reynt að myrða auðjöfurinn Boris Berezovsky. Árið 2000 leitaði Litvinenko hælis í Bretlandi.

Bresku blöðin Sunday Times og Mail on Sunday greina frá því í dag að Litvinenko hafi legið á sjúkrahúsi í Lundúnum frá fyrsta nóvember. Kvöldinu áður hafi hann átt kvöldverðarfund með heimildarmanni vegna rannsóknar sinnar á morðinu á rússnesku rannsóknarblaðakonunni Önnu Politkovskayu. Hún var myrt í Moskvu í síðasta mánuði. Síðan hafi Litvinenko veikst og liggur hann nú þungt haldinn á sjúkrahúsi í Lundúnum. Sérfræðingar telja að Litvinenko hafi verið gefið þalíum sem getur reynst banvænt, jafnvel í afar litlum skömmtum.

Sérfræðingar segja um tvennt að velja sem skýringu fyrir því að eitrað hafi verið fyrir Litvinenko. Annars vegar hafi Litvinenko dregist inn í deilur Berezovskys við aðra auðjöfra í Rússlandi eða að eitrunin sé viðvörun til Berezovskys og annarra um að skipta sér ekki að forsetakosningunum í Rússlandi 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×