Erlent

Eitrað fyrir njósnara

Breska lögreglan rannsakar nú hvernig eitrað hafi verið fyrir rússneskum njósnara sem leitaði hælis í Bretlandi fyrir sex árum. Hann liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi.

Alexander Litvienko var njósnari KGB og náði þar skjótum frama. Hann starfaði áfram fyrir öryggissveitir Rússa sem tóku við af KGB. Litvienko hafði það verkefni að lauma sér inn í og splundra hryðjuverkasellum. Hann flúði Rússland í nóvember árið 2000 og leitaði hæli í Bretlandi. Tveimur árum áður hafði hann opinberlega greint frá því að yfirmenn hans hefðu fyrirskipað morð á voldugum ráðamanni í Kreml.

Bresku blöðin Sunday Times og Mail on Sunday greina frá því í dag að Litvinenko hafi legið á sjúkrahúsi frá fyrsta nóvember síðastliðnum og að hann sé þungt haldinn. Allt bendi til þess að eitrað hafi verið fyrir honum og hann nærri dauða en lífi. Talsmaður Scotland Yard segir nú reynt að greina hvað honum hafi verið gefið og hvernig.

Samkævmt Sunday Times mun lifur Litvienko hafa hætt að starfa með eðlilegum hætti og beinmergur illa farinn, auk þess þurfi hann sífellt að kasta upp og hann mun hafa misst allt hárið. Að sögn blaðanna mun Litvinenko hafa veikst eftir að hafa snætt kvöldverð með ítölskum manni sem sagði honum að hann hefði upplýsingar um morðið á rússnesku rannsóknarblaðakonunni Önnu Politkovskayu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×