Enski boltinn

Sama gamla sagan hjá Arsenal

Thierry Henry skorar jöfnunarmark Arsenal í dag.
Thierry Henry skorar jöfnunarmark Arsenal í dag. Getty Images

Ófarir Arsenal á hinum nýja heimavelli sínum, Emirates, halda áfram og í dag náði liðið aðeins jafntefli gegn Newcastle. Arsenal sótti án afláts í leiknum og hefði með réttu átt að skora nokkur mörk en eins og í síðustu leikjum gengur liðið herfilega að nýta marktækifærin.

Kieron Dyer hafði komið Newcastle yfir í fyrri hálfleik en hann var óvænt í byrjunarliðinu í dag eftir að hafa verið lengi frá vegna meiðsla. Arsene Wenger kaus að byrja með Thierry Henry á varamannabekknum og gefa honum dýrmæta hvíld en en án hans var sóknarleikur Arsenal ekki eins markviss og hann á að sér.

Henry kom inn á í hálfleik og á 70. mínútu hafði sá franski jafnað metin með stórkostlegu marki beint úr aukaspyrnu. Það sem eftir lifði leiks dundu sóknarlotur Arsenal á marki Newcastle en hrikalegur klaufaskapur, í bland við ótrúlega óheppni og magnaða markvörslu Shy Given, varð til þess að boltinn fór ekki inn.

Jafnteflið þýðir að Arsenal er áfram í 3. sæti deildarinnar með 22 stig, 12 stigum minna en topplið Manchester United. Newcastle er með 10 stig í 17. sæti og er komið úr fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×