Innlent

Rektor Bifrastar hlaut umbeðinn stuðning

Runólfur Ágústsson, rektor á Bifröst.
Runólfur Ágústsson, rektor á Bifröst. MYND/KÞ

Um sjötíu prósent viðstaddra nemenda og starfsfólks í Háskólanum á Bifröst lýsti í dag yfir stuðningi við Runólf Ágústsson, rektor skólans. Atkvæðagreiðslan fór fram á fundi, sem haldinn var rétt í þessu á háskólasvæðinu á Bifröst, vegna óánægju sem verið hefur verið innan skólans með störf rektors.

Nemendur fengu tölvupóst sendan sem innihélt bréf sem send höfðu verið stjórn háskólans. Í bréfunum er fjallað um meint embættisafglöp rektors, óeðlileg samskipti við nemendur og samneyti við nemendur. Guðjón Auðunsson, formaður stjórnar skólans, segir stjórnina ekki hafa fjallað um bréfin þar sem þau hafi verið nafnlaus og þar með ekki hægt að líta á þau sem formlegar kærur.

Nemendur sem ósáttir eru við störf rektors sögðu í samtali við NFS að rektor hafi haldið rússneskan fund, ekki leyft neinum að tjá sig og ekki svarað neinum spurningum. Aðrir nemendur segja ómaklega vegið að rektor.

Rektor vildi ekki svara spurningum fjölmiðlafólks eftir fundinn og það vildi Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor, ekki heldur. Rektor gaf þess í stað út yfirlýsingu. Þar segist hann hafa gert hreint fyrir sínum dyrum og að kærurnar eigi ekki við rök að styðjast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×