Erlent

Jacques Chirac íhugar framboð í þriðja skipti

Eiginkona Jacques Chiracs, forseta Frakklands, segir að hann sé enn að íhuga hvort hann eigi að bjóða sig fram í þriðja skipti í kosningunum sem haldnar verða í apríl á næsta ári. Bernadette Chirac, segir í blaðaviðtali að hann muni taka ákvörðun sína í byrjun næsta árs.

Forsetinn var í viku á sjúkrahúsi, á síðasta ári, vegna einhverra vandamála í æðakerfi. Það hafði áhrif á sjón hans og var jafnvel talið að hann hefði fengið vægt heilablóðfall. Litlar upplýsingar voru gefnar um veikindi hans.

Bernadette Chirac blés á allar vangaveltur um heilsu forsetans, sem er sjötíu og þriggja ára gamall. Hún sagði að hann væri í fínu formi. Almennt er talið að Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra, sem er fimmtíu og eins árs gamall, sé líklegastur til að hljóta útnefningu flokksins fyrir kosningarnar, en Bernadette Chirac blæs líka á þann orðróm. "Síðasta orðið hefur ekki verið sagt ennþá," sagði hún í viðtalinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×