Erlent

Ekki hægt að útiloka fyrirbyggjandi árásir

Bush Bandaríkjaforseti hefur ekki útilokað árás á Íran.
Bush Bandaríkjaforseti hefur ekki útilokað árás á Íran. MYND/AP

Bandaríkin eða aðrar þjóðir verða að íhuga möguleikann á fyrirbyggjandi árás ef Íran eða Norður-Kórea halda áfram að sækjast eftir kjarnorkuvopnum. Þessu skýrði háttsettur embættismaður innan bandarísku stjórnarinnar frá í kvöld.

Bandaríkin og bandamenn þeirra hafa sakað löndin tvö um ætla sér að koma upp kjarnorkuvopnum en Íranir neita þeim ásökunum. Embættismaðurinn, sem talaði gegn því skilyrði að ekki yrði skýrt frá því hver hann væri, sagði að önnur ríki á þessum svæðum gætu farið að íhuga kjarnorkuvopnaeign ef þessi tvö ríki héldu áfram með áætlanir sínar. Þess vegna væri ekki hægt að útiloka fyrirbyggjandi árásir á þau í framtíðinni.

George W. Bush hefur sagt að hann styðji viðræður en hefur þó ekki útilokað hernaðaraðgerðir gegn Írönum enn. Sérfræðingar segja að árás á búnað Írana til kjarnorkuframleiðslu myndi aðeins seinka áætlunum þeirra um 4 ár. Sumir halda að Ísrael eigi eftir að gera loftárásir á búnaðinn ef Íranar halda áfram að ögra þeim en Íranar hafa sagt að þeir myndu svara slíkri árás um leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×