Erlent

"Jihad" er ekki heilagt stríð

Islamskur heimspekingur sem átti fund með Benedikt páfa segir að hann sé enginn sérfræðingur í trúfræðum múslima, en þyrsti í meiri fróðleik um trúna og vilji eiga einlægar viðræður við fylgjendur hennar.

Mustapha Cherif er fyrrverandi menntamálaráðherra og sendiherra fyrir föðurland sitt, Alsír. Hann hefur verið virkur í skoðanaskiptum islamskra og kristinna fræðimanna.

Cerif sagði að páfi væri mikill fræðimaður, en ekki sérfróður um islam. Hann upplýsti Benedikt meðal annars um að "jihad" þýddi í raun ekki heilagt stríð heldur réttlátt stríð, með reglum um framferði og verndun sakleysingja.

Cherif sagði að hann hefði tjáð páfa að hugtakið "jihad" væri í raun það sama og heilagur Ágústínus hafi sagt um réttlátt stríð. Doktorsritgerð Benedikts páfa var einmitt um þennan fimmtu aldar dýrðling. Cherif sagði að páfi hefði orðið undrandi og sagt að þetta þyrfti að kynna betur.

Um ósætti múslima við orð páfa í Regensburg sagði Cherif að það væri deila sem hann léti deilugjörnum eftir. Páfi hefði lýst iðrun vegna ummælanna og sjálfur væri hann sannfærður um góðan vilja hans til að eiga viðræður við múslima byggðar á gagnkvæmri virðingu. Það sé það sem meirihluti múslima vilji.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×