Innlent

Skipið á leið til Reyðarfjarðar

Reyðarfjörður
Reyðarfjörður MYND/Vísir

Erlent flutningaskip, sem lenti í háska í roki og stórsjó rúmar hundrað sjómílur suðaustur af landinu þegar aðalvél þess bilaði í nótt, siglir á ný fyrir eigin vélarafli áleiðis til Reyðarfjarðar. Hættan er talin liðin hjá.

Þegar vélin bilaði á þriðja tímanum í nótt hafði skipstjórinn samband við Landhelgisgæsluna og bað hana um að vera í viðbragðsstöðu, enda var ölduhæðin á níunda metra , eða á við rúmlega þriggja hæða hús, og bál hvasst. Þegar var ákveðið að senda báðar stóru þyrlur gæslunnar til Hornafjarðar til móts við skipið, og komu þær þangað eftir erfitt flug í miklum mótvindi í morgun þar sem tekið var eldsneyti. Jafnframt var öðru erlendu flutningaskipi beint að skipinu til að reyna að verja það áföllum. Þá dugði vélarorka bilaða skipsins rétt til þess að halda því upp í veðrið svo því slægi ekki flötu fyrir, en þá hefði voðinn verið vís.

Undir morgun tókst skipverjum svo að koma vélinni í lag og siglir skipið nú á ellefu sjómílna hraða áleiðis til Reyðarfjarðar og verður komið þangað klukkan sex í kvöld, ef allt gengur að óskum. Til öryggis hafa þyrlurnar þó verið látnar bíða á Höfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×