Enski boltinn

Leikstíll Bolton hentar Anelka illa

NordicPhotos/GettyImages

Franski framherjinn Nicolas Anelka segist eiga erfitt með að aðlagast leikstíl Bolton í ensku úrvalsdeildinni og segist ekki finna sig þegar hann þurfi að spila einn í framlínunni. Anelka gekk í raðir Bolton í sumar frá Fenerbahce í Tyrklandi og hefur áður leikið með liðum eins og Arsenal og Real Madrid.

"Það sem er erfiðast er að aðlagast leikaðferð Bolton, því ég hef aldrei spilað með liði sem leikur svona. Leikur liðsins byggir mikið á löngum sendingum og það virðist vera að virka ágætlega. Stjórinn þekkir styrkleika leikmanna sinna og byggir mikið á því að verjast og pressa ofarlega á vellinum," sagði Anelka í samtali við fjölmiðla í heimalandi sínu.

"Ég veit vel að það hentar mér betur að spila fyrir aftan framherjana, en ég mun fara að skora þegar ég aðlagast þessum nýja leikstíl betur og þá fara mörkin að koma á fullu. Ég er einn í framlínunni eins og staðan er í dag og þjálfarinn ræður. Ég geri bara það sem hann telur best fyrir liðið," sagði Anelka sem hefur verið iðinn við að koma sér í ónáð þar sem hann hefur spilað allan sinn feril.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×