Innlent

Kortanúmer birtast á kassastrimlum

Kassastrimlar eru ekki mikilvægir pappírar í augum margra en í nokkrum verslunum á Íslandi er þó ráð að gæta þeirra eins og sjáaldurs augna sinna.

Þegar við greiðum með kreditkorti í 22 verslunum Bónuss og fáeinum litlum verslunum fáum við kassastrimil - og á honum birtist kortanúmerið eins og það leggur sig og gildistími kortsins. Upplýsingar sem fæstir vilja fleygja frá sér á búðargólf - eins og sumir gera við kassastrimla. Samkvæmt upplýsingum frá Vísa Ísland er vel hægt að misnota kreditkort með kortanúmer og gildistíma í höndunum þótt flest stærri netfyrirtæki biðji auk þess um sérstakt öryggisnúmer sem er aftan á kortinu. En ekki öll og símaviðskipti með kort eru gjarnan eingöngu útfrá þessum upplýsingum. Að sögn Svans Valgeirssonar, starfsmannastjóra hjá Bónus, er þessar vikurnar verið að skipta gömlu kassakerfi út fyrir nýtt og ætti því að vera lokið í febrúar á næsta ári í síðasta lagi. Í núverandi kerfi er ekki hægt að eyða út hluta af kortanúmeri á kassastrimlunum en það verður hægt í nýja kerfinu. Nýja kerfið hefur þegar verið sett upp í þremur verslunum, í Spönginni, á Smáratorgi og í Holtagörðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×