Erlent

Forseti danska þingsins fer fram á lögreglurannsókn

Forseti danska þingsins hefur óskað eftir lögreglurannsókn vegna frétta danskra fjölmiðla um að kókaínleifar hafi fundist á þremur salernum danskra þingmanna í Kristjánsborgarhöll. Hann segir málið allt hið alvarlegasta.

Það var danska dagblaðið BT sem gerði athugun á þrjátíu salernum þingsins nýverið. Notast var við sömu tækni og aðferðir og lögreglan notar til að finna ummerki um eiturlyf. Talsmaður lögreglu segir að ef niðurstöður hafi sýnt að um kókaínleifar hafi verið að ræða, þá leiki enginn vafi á því að kókaín hafi verið haft um hönd á salernunum.

Forseti þingsins hefur óskað eftir því að lögregla rannsaki málið. Hann segist ekki hafa ástæðu til að draga fullyrðingar BT í efa. Málið sé allt hið alvarlegasta og því hafi orðið að kalla til lögreglu.

Þingmenn segja þetta óásættanlegt en benda á að ekki sé hægt að fullyrða að þingmenn hafi notað efnin ef satt reynist. Margir aðrir eigi leið um þinghúsið á degi hverjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×