Innlent

Íbúar við Höfðatorg mótmæla skipulagi

Sól og skjól eru einkunnarorð fyrir háreista íbúðabyggð sem fyrirhugað er að rísi við Skúlatúnsreit við Höfða gangi nýtt deiliskipulag eftir. Þrír turnar, 14 til 19 hæða háir, munu hins vegar stuðla að skugga og sólarleysi fyrir lágreista nágrannabyggðina og íbúarnir mótmæla harðlega.

Talsmaður íbúa í Túnahverfi við Höfðatorg afhenti í dag fulltrúum borgarstjórnar formleg mótmæli vegna nýs deiliskipulags. Yfir 200 íbúar skrifuðu undir, en þeir eru ósáttir við hærri byggingar en gert var ráð fyrir í fyrra skipulagi, sérstaklega þrjá turna, 14 til 19 hæða háa.

Ragnheiður Liljudóttir er talsmaður íbúa í hverfinu. Hún segir nafn fyrirhugaðs kjarna vera kallaðan Sól og Skjól, og það muni einmitt veita íbúum þess það, hins vegar muni láreista byggðin í Túnunum falla í skuggann í bókstaflegri merkingu.

Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi Samfylkingar deilir áhyggjum íbúa. Hann segir mjög þröngt vera orðið um hús á svæðinu, þarna sé hætta á að verði kulsælt og of langt hafi verið gengið í framkvæmdum.

Ragnheiður tekur sem dæmi að á sumarsólstöðum verði skuggi byrjaður að leggjast yfir hverfið um klukkan 16 og taki þar af leiðandi kvöldsól af íbúum. Það muni rýra verðmæti eignanna. Þá telja íbúar aukna umferð sem skapist muni hafa verulega slæm áhrif fyrir hverfið.

Íbúasamtök Laugardals boða til fundar um málið klukkan 20 í kvöld í safnaðarheimili Áskirkju.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×