Erlent

Kræsingar frá því 100 eftir Krist

MYND/AP

Spænskir fornleifafræðingar eru að skoða skipsflak á hafsbotni, af skipi sem notað var til þess að flytja kræsingar til auðmanna í Rómaveldi, árið eitthundrað eftir Krist.

Skipið liggur undan ströndum Alicante og er talið að það hafi verið á leið frá Cadiz, til Rómar, þegar það fórst í óveðri aðeins einn og hálfan kílómetra frá ströndinni. Flakið fannst fyrir algera tilviljun.

Fornleifafræðingarnir segja að þetta sé einstakur fundur. Bæði sé skipið óvenju stórt og vel varðveitt. Það hefur verið um þrjátíu metra langt og getað borið fjögur hundruð tonn af varningi. Það hefur því verið miklu stærra en önnur rómversk skip sem hafa fundist frá þessu tímabili.

Varningurinn í síðustu ferð skipsins var mörghundruð amfórur, leirker með tveim handföngum. Innihaldið var fiskisósa sem þótti mikið lostæti í Róm. Hún var svo dýr að aðeins ríkistu fjölskyldur höfðu efni á að kaupa hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×