Erlent

Pólverjar beittu Rússa neitunarvaldi hjá ESB

Pólverjar beittu í dag neitunarvaldi til að koma í veg fyrir að Evrópusambandið hæfi viðræður við Rússa um breiðari samvinnu, sérstaklega í orkumálum. Vonast var til að viðræðurnar gætu hafist á fundi í Helsinki hinn 24. þessa mánaðar.

Pólverjar létu ekki undan þrábeiðni annarra aðildarríkja um að beita ekki neitunarvaldi í þessu máli. Þeir bera fyrir sig að Rússar hafi bannað innflutning á pólsku kjöti og matjurtum, án tilefnis. Rússar segja bannið vera af heilbrigðisástæðum, en sérfræðingar Evrópusambandsins hafa oftar en einusinni vottað að pólskar matvörur uppfylli öll skilyrði.

Bæði Pólverjar og aðrar þjóðir í Austur-Evrópu hafa sakað Rússa um að nota orkusölu sína sem pólitískt vopn, enda hafa Rússar ekki vílað fyrir sér að hækka verð eða jafnvel skrúfa fyrir gas og olíu til landa sem þeir hafa lent upp á kant við.

Orkumálin eru einmitt eitt af því sem Evrópusambandið vill semja við Rússa um, enda er það upp á Rússa komið með þrjátíu prósent af þeirri orku sem notuð er í aðildarríkjunum. Sambandið vill fá Rússa til þess að undirgangast skuldbindingar sem tryggi öryggi landa sem kaupa orku frá þeim, en Rússar eru ófúsir til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×