Innlent

Víða stórhríð og ófærð

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. MYND/Vísir

Björgunarsveit var kölluð út í Ólafsvík á ellefta tímanum til að hemja járnplötur, sem voru farnar að fjúka af gistiheimilinu þar. Víða um land er hvassviðri, stórhríð og ófærð.

Öllu hvassara hefur verið á sunnanverðu nesinu í morgun og það er óveður á Holtavörðuheiði og í Svínadal. Annars er hálka, snjóþekja og skafrenningur á vegum á Vesturlandi.

Á Vestfjörðum er beðið með mokstur um Ísafjarðardjúp vegna óveðurs þar, stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði og Gemlufallsheiði, og ófært er á Klettshálsi og Eyrarfjalli. Óveður er í Hrútafirði, stórhríð á Þverárfjalli og á milli Hofsóss og Sigurfjarðar. Sömuleiðis er stórhríð á milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur, einnig á Víkurskarði og Ljósavatnsskarði og sunnan Húsavíkur.

Þá er hálka og skafrenningur á Mývatns- og Möðrudalsöræfum. Á Austurlandi er ástandið skárra fyrir utan hálku og að Öxi er ófær, en þokkalegt veður er á suðaustur og Austurlandi og allir vegir greiðfærir.

Nokkrir stórir togarar liggja í vari inni á fjörðum fyrir vestan vegna óveðurs á miðunum. Sárafá skip eru nú á sjó vegna óveðurs víða við landið en ekki er vitað til þess að neitt skip hafi orðið fyrir brotsjó, eða að önnur óhöpp hafi orðið um borð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×