Enski boltinn

Sigurinn á Liverpool var mjög mikilvægur

NordicPhotos/GettyImages

Arsene Wenger var að vonum ánægður með frammistöðu sinna manna í Arsenal í dag þegar liðið skellti Liverpool 3-0 á Emirates vellinum. Hann sagði sigurinn gríðarlega mikilvægan fyrir sína menn.

"Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur fyrir okkur eftir vonbrigðin gegn West Ham um daginn. Það er nauðsynlegt að ná að rétta fljótt úr kútnum eftir svona töp og ég verð að segja að ég óttaðist að yrði ekki nóg sjálfstraust í mönnum í dag. Hver einasti maður skilaði þó sínu hlutverki og lykilmenn mínir voru allir að spila frábærlega. Það hefði auðvitað verið allt annað ef Liverpool hefði náð að skora fyrsta markið, en eftir að við náðum að skora fyrsta markið - náðum við að gera út um leikinn," sagði ánægður Wenger sem hafði ekki talað við fjölmiðla síðan hann flaugst á við Alan Pardew stjóra West Ham á dögunum.

"Ég vil ekki tjá mig mikið um atvikið um daginn nema hvað ég iðrast þess að hafa brugðist jafn hart við og ég gerði. Meira vil ég ekki segja um þetta mál, því ég einfaldlega má það ekki í ljósi þess að við Pardew vorum kærðir fyrir rimmu okkar. Ég hef þó tekið við afsökunarbeiðni Pardew," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×