Erlent

Egeland fundaði með umdeildum uppreisnarleiðtoga

MYND/AP

Jan Egeland, yfirmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum, átti stuttan fund með Joseph Kony, leiðtoga Uppreisnarhers Drottins í Úganda, í frumskógi í Suður-Súdan fyrr í dag. Þar hugðist Egeland reyna að fá Kony til þess að sleppa börnum, konum og særðum sem uppreisnarher hans hefur rænt en Kony sagði herinn aðeins halda hermönnum föngnum.

Með fundinum vildi Egeland einnig reyna að styðja við friðarviðræður milli Uppreisnarhersins og stjórnvalda í Úganda en blóðugt borgarastríð hefur staðið á í Úganda í 20 ár. Stríðið hefur kostað tugþúsundir manna lífið og um tvær milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín vegna þess. Kony er eftirlýstur fyrir stríðsglæpi en her hans á að hafa rænt börnum bæði í Norður-Úganda og Suður-Súdan í stríðinu og þjálfað þau til hernaðar.

Friðarviðræður milli stjórnvalda í Úganda og leiðtoga uppreisnarmanna hafa farið fram í bænum Juba í Suður-Súdan en þeim hefur lítið miðað áfram, meðal annars vegna ásakana á báða bóga um rof á vopnahléi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×