Erlent

Rússneskir lögreglumenn grunaðir um morðið á Politkovskaju

Rússneskir lögreglumenn, sem sinntu herþjónustu í Tsjetsjeníu, eru grunaðir um að standa á bak við morðið á rússnesku blaðakonunni Önnu Politkovskaju. Frá þessu greinir rússneska blaðið Kommersant.

Politkosvskaja var drepin þann 7. október síðastliðinn þegar hún var á leið inn í íbúð sína í Moskvu, en hún hafði í mörg ár fjallað um stríðið í Tsjetsjeníu og gagnrýnt stjórnvöld í Moskvu fyrir framgöngu þeirra þar.

Kommersant greinir frá því að fyrrverandi majór í lögreglunni, Aleksandr Prilepin, og átta aðrir lögregluþjónar hafi staðið á bak við morðið en Prilepin mun vera í felum í Síberíu eftir að alþjóðleg handtökuskipun var gefin út á hendur honum.

Prilepin mun hins vegar hafa neitað því í samtali við annað dagblað að hafa staðið á bak við morðið og segir óskiljanlegt hvers vegna hann eða samstarfsmenn hans hefðu átt að leita hefnda vegna skrifa Politkovskaju svo mörgum árum eftir að þeir gengdu herþjónustu í Tsjetsjeníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×