Um sextán hundruð lík bárust líkhúsi Bagdad-borgar í októbermánuði sem gerir hann að næstversta mánuði ársins. Frá þessu greinir Reuters-fréttastofan og hefur eftir ónafngreindum heimildarmanni sínum í Bagdad. Um 85 prósent þeirra sem fluttir voru í líkhúsið munu hafa látist í einhvers konar ofbeldisaðgerðum, flestir karlmenn af völdum skotsára.
Ramadan, hinn helgi mánuður múslíma, var í síðasta mánuði og svo virðist sem átök trúarhópa hafi aukist í þá. Innanríkisráðuneyti Íraks birti í síðustu viku tölur sem sýndu að tæplega 1300 hefðu látist í átökum tengdum stjórnmálum í landinu í október en aldrei hafa fleiri látist af þeim sökum í landinu.