Innlent

Flugfélög sökuð um samráð

Icelandair og Iceland Express eru sökuð samráð um fjargjalda- og flugskattahækkanir á síðustu þremur árum í nýju blaði Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Þar er bent á að skattar og gjöld sem þau leggi á fargjöld hafi hækkað um allt að 147 prósent á síðustu þremur árum og þá hafi lægstu fargjöld hækkað um fimmtíu prósent.

Séu skattar og gjöld sem félögin innheimti yfirleitt tvöfalt eða þrefalt hærri en hjá öðrum flugfélögum á sambærilegum leiðum innan Evrópu. Enn fremur segir í greininni í FÍB-blaðinu að samkeppni hafi verið í greininni þegar Iceland Express kom til skjalanna árið 2003 en að félögin tvö hafi orðið samstíga í hækkunum eftir að nýir eigendur komu að Iceland Express í lok árs 2004. Það ásamt því að eigendur Iceland Express og FL Group, sem var aðaleigandi Icelandair til skamms tíma, eigi í margvíslegum viðskipta- og eignasamböndum styðji fullyrðingar FÍB um samráð.

Segir enn fremur í blaðinu að samstilltar hækkanir flugfélaganna hafi ekki síst tryggt afar góða afkomu bæði Icelandair og Iceland Express. Er jafnframt sagt að óhjákvæmlegt sé að Samkeppniseftirlitið rumski við þessar ábendingar FÍB og kanni málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×