Enski boltinn

Auðveldur sigur Reading á Tottenham

NordicPhotos/GettyImages

Íslendingalið Reading sýndi enn og aftur að liðið er komið til að vera í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar liðið skellti Tottenham 3-1 á heimavelli sínum. Reading situr nú í 11. sæti deildarinnar og fór upp fyrir Lundúnaliðið með sigrinum í dag.

Robbie Keane kom Tottenham yfir eftir 24 mínútur þegar hann skoraði úr vítaspyrnu, en Nicky Shorey jafnaði á 38. mínútu með skoti sem landsliðsmarkvörður Englendinga hefði átt að verja. Aðeins nokkrum mínútum síðar skoraði svo Steven Sidwell annað mark Reading og Kevin Doyle gerði svo út um leikinn á 79. mínútu.

Tottenham hafði ekki tapað í 10 leikjum í röð í öllum keppnum fyrir viðureignina í dag, en gengi liðsins á útivöllum er afleitt í deildinni og hefur liðið ekki unnið sigur þar í 8 leikjum í röð.

Ívar Ingimarsson var að venju í byrjunarliði Reading og átti ágætan leik, en Brynjar Björn Gunnarsson var á bekknum og spilaði síðustu mínúturnar í leiknum. Reading er því í ágætum málum í deildinni og situr í 11. sæti eins og áður sagði, en Tottenham situr eftir í 12. sætinu sem er langt frá væntingum liðsins eftir gott gengi á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×