Enski boltinn

Held að United verði við toppinn

NordicPhotos/GettyImages

Mark Hughes sagðist ekki hafa neitt upp á leik sinna manna að klaga eftir 1-0 ósigur gegn fyrrum félögum sínum í Manchester United í dag. Hann segir lið United mjög líklegt til afreka í vetur.

"Ég get ekki kvartað yfir þessum úrslitum en mér þótti lið mitt standa sig ágætlega og gera þeim lífið erfitt á köflum. Lið United er þó betra en það hefur verið á síðustu árum og það er reglulegur kraftur í liðinu. Ég held að United verði í slagnum um titilinn í allan vetur. Ef við hinsvegar náum að halda sama dampi í vetur og verið hefur undanfarið - held ég að við munum vinna fleiri leiki en við töpum," sagði Hughes sem lék um árabil undir stjórn Alex Ferguson hjá United.

Ferguson sjálfur var kátur með úrslitin og vonar að velgengni liðsins haldi áfram, en sigur United var sá sjötti í röð í deildinni. "Við höfum sannað það í undanförnum leikjum að við eigum möguleika á titlinum í vor og það er gott að ná að hanga í Chelsea að þessu sinni, því Chelsea hefur stungið af á síðustu tveimur tímabilum og spilað frábærlega. Ég held að janúar komi til með að ráða miklu um það hvernig okkur vegnar á leiktíðinni og það er mjög mikilvægt að við sleppum við alvarleg meiðsli," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×