Enski boltinn

Drogba með þrennu í sigri Chelsea

NordicPhotos/GettyImages

Englandsmeistarar Chelsea tóku Watford í bakaríið 4-0 í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þar sem framherjinn Didier Drogba fór á kostum og skoraði þrennu. Andriy Shevchenko skoraði eitt mark fyrir Chelsea, sem komst með sigrinum upp að hlið Manchester United á toppnum en Rauðu Djöflarnir eiga leik gegn Blackburn til góða í dag.

Aston Villa vann góðan útisigur á Everton 1-0 með marki Chris Sutton, Middlesbrough lagði West Ham 1-0 með marki frá Massimo Maccarone á 74. mínútu, Portsmouth og Fulham skildu jöfn 1-1 þar sem Zat Knight skoraði fyrir Fulham en Andy Cole jafnaði fyrir Portsmouth. Heiðar Helguson kom ekki við sögu hjá Fulham í leiknum.

Sheffield United náði jöfnu 2-2 við Bolton eftir að El Hadji Diouf og Kevin Davies komu gestunum í Bolton í 2-0 eftir klukkutíma leik, en þeir Rob Hulse og Colin Richards jöfnuðu með mörkum á 70. og 73. mínútu.

Þá vann Wigan 3-2 sigur á Charlton. Lee McCulloch, Henri Camara og Matthew Jackson skoruðu mörk Wigan, en Darren og Marcus Bent skoruðu mörk Charlton. Hermann Hreiðarsson var í liði Charlton, sem er enn á botni úrvalsdeildarinnar með aðeins 8 stig eftir 12 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×