Erlent

Barsmíðar lögreglu í LA vekja reiði

Myndir sem sýna lögregluna í Los Angeles beita miklu harðræði við handtöku hafa vakið bæði óhug og reiði. Talsmaður lögreglunnar telur hins vegar að eðlilega hafi verið staðið að handtökunni.

Vegfarandi tók myndirnar í ágúst síðastliðnum þegar lögreglumenn handtóku hinn 24 ára gamla William Cardenas og birti þær á vefsíðunni Youtube. Á meðan höggin eru látin dynja á manninum heyrist hann hrópa að hann geti ekki andað.

Lögreglan í Los Angeles hefur áður sætt gagnrýni fyrir harðræði. Skemmst er að minnast óeirðanna í borginni eftir ofbeldið sem blökkumaðurinn Rodney King sætti árið 1991. Bæði alríkislögreglan og lögreglan í Los Angelens rannsaka nú mál Cardenas.

Formaður stéttarfélags lögreglumanna telur hins vegar að þar sem Cardenas virðist hins vegar streitast á móti hafi viðbrögð lögregluþjónanna verið rétt. Hann situr nú á bak við lás og slá fyrir hafa sýnt mótþróa við handtökuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×