Erlent

Breska leyniþjónustan rannsakar áform um 30 hryðjuverkaárásir

Eliza Manningham-Buller yfirmaður MI5
Eliza Manningham-Buller yfirmaður MI5

Elísa Manningham-Buller, yfirmaður bresku leyniþjónustunnar MI5, segir 30 hryðjuverkaárásir í rannsókn í Bretlandi og að leyniþjónustan fylgist með yfir 1600 einstaklingum, sem margir væru í tengslum við Al-Kæda í Pakistan.

Manningham-Buller sagði að verið væri að undirbúa unga menn undir að gera sjálsmorðssprengjuárásir, en það væri þó ekki mesta ógnin.

Sú stund nálgaðist að hryðjuverkamenn yrðu í aðstöðu til þess að beita efna- og sýklavopnum og jafnvel kjarnorkuvopnum.

Yfirmaður MI5 sagði að njósnarar hennar og lögreglan hefðu komið í veg fyrir fimm meiriháttar árásir síðan hryðjuverkaárásir voru gerðar á lestarkerfi Lundúnaborgar, á síðasta ári.

Meðal annars var komið í veg fyrir árásir á allt að tíu farþegaþotur á flugi frá Evrópu til Bandaríkjanna.

Elíza Manningham-Buller tjáir sig mjög sjaldan opinberlega um öryggismál, og að hún skuli gera það með þessum hætti þykir til marks um hvað ríkisstjórnin tekur þetta alvarlega.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×