Erlent

Hamas ekki í nýrri stjórn Palestínumanna

MYND/AP

Ismail Haniyeh, forsætisráðherra Palestínu, gaf í skyn í dag að hann myndi ekki taka sæti í þjóðstjórninni sem Hamas samtökin eru að reyna að mynda með Fatah hreyfingu Mahmouds Abbas, forseta.

Haniyeh, sem er einn af æðstu leiðtogum Hamas, vill hvorki afneita ofbeldi né viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis. Ríkisstjórn sem hann veitti forstöðu hlyti því enga viðurkenningu á vesturlöndum. Palestínumenn þurfa nú á aðstoð vesturlanda að halda sem aldrei fyrr.

Efnahagur sjálfstjórnarsvæðanna er í rúst, eftir að Evrópusambandið og Bandaríkin hættu allri aðstoð, eftir að Hamas vann sigur í þingkosningum fyrr á árinu.

Abbas, forseti, hefur reynt, mánuðum saman, að semja við Haniyeh um myndin þjóðstjórnar, en þar hefur alltaf steytt á viðurkenningu á tilverurétti Ísraels. Neyðarlausn forsetans er að mynda stjórn embættismanna, þar sem Haniyeh verður ekki innanborðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×