Erlent

Demókratar nær öruggir um sigur

Allt bendir til að demókratar hafi náð meirihluta í báðum deildum í bandarísku þingkosningunum, í fyrsta sinn í tólf ár. George Bush forseti hefur rétt út sáttahönd til leiðtoga þeirra og kveðst nú opinn fyrir öllum hugmyndum um hernaðinn í Írak.

Aðeins á eftir að staðfesta úrslit í Virginíu-ríki en lyktir kosninganna þar ráða því hvor fylkingin fær meirihluta í öldungadeildinni. Þar hefur demókratinn James Webb 7.200 atkvæða forystu á sitjandi þingmann repúblikana, George Allen. Enn á eftir að skera úr um eitt prósent atkvæðanna en munurinn á milli þeirra er sagður of mikill til að nokkrar líkur séu á að staðan breytist. Helstu fréttastofur hafa þegar lýst Webb sigurvegara, einungis er beðið eftir að Allen játi sig sigraðan. Fari leikar á þennan veg hafa flokkarnir jafnmarga þingmenn í öldungadeildinni, 49 hvor, en tveir óháðir þingmenn hafa sagst ætla að greiða atkvæði með demókrötum og meirihlutinn þar með þeirra. Tímarnir eru því breyttir og viðmót repúblikana um leið. George Bush hitti Nancy Pelosi, verðandi forseta fulltrúadeildarinnar, í dag með það að markmiði að bæta samskiptin og í dag rétti hann út áður óþekkta sáttahönd þegar hann kvaðst opinn fyrir nýjum hugmyndum um málefni Íraks.

Ljóst er að ríkisstjórnin á erfiða tíma fyrir höndum þegar þingið er þeim ekki hliðhollt. Meirihluti í öldungadeildinni þýðir að demókratar geta stofnað þingnefndir til að spyrja ráðherra spjörunum úr og einnig geta þeir hafnað skipunum á embættismönnum, til dæmis hæstaréttardómurum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×