Innlent

Íslenski sýningarskálinn verðlaunaður á Feneyjatvíæringnum

Ólafur Elíasson fjallar um hönnun sína á hjúp tónlistar- og ráðstefnuhússins við opnun íslenska sýningarskálans í Feneyjum 8. september síðastliðinn.
Ólafur Elíasson fjallar um hönnun sína á hjúp tónlistar- og ráðstefnuhússins við opnun íslenska sýningarskálans í Feneyjum 8. september síðastliðinn.

Íslenski sýningarskálinn á Feneyjatvíæringnum um byggingarlist og borgarskipulag hlaut í gær sérstaka viðurkenningu dómnefndar fyrir framúrskarandi framsetningu og samspil listamanns og arkistektastofu, en þar kynna Íslendingar tónlistar- og ráðstefnuhúsið við Austurhöfn í Reykjavík ásamt tilheyrandi skipulagi og uppbyggingu í miðborginni.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í Feneyjatvíæringnum um byggingarlist og borgarskipulag en skáli landsins var opnaður í byrjun september. Fram kemur í tilkynningu frá eignarhaldsfélaginu Portus Group, sem stendur að uppbyggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins ásamt ríki og borg að 145 sýningarskálar hafi verið á hátíðinni í ár.

 

Sérstök verðlaunaafhending fór fram í Teatro Malibran leikhúsinu í Feneyjum í gær vegna hátíðarinnar og þar var var Gullna Ljónið 2006, verðlaun Feneyjatvíæringsins um framúrskarandi kynningu á byggingarlist og borgaskipulagi, afhent. Verðlaunum til sýningarskála var skipt í þrjá flokka: Sýningarskála borga, sýningarskála þjóða og sýningarskála ákveðinna þróunarverkefna í borgarskipulagi.

 

Að þessu sinni hlaut Bogotá í Kolumbíu Gullna Ljónið fyrir sýningarskála borga, Danski sýningarskálinn Gullna Ljónið fyrir sýningarskála þjóða og Javier Sanchez/Higuera+Sanches fyrir þróunarverkefnið "Brazil 44" í Mexíkóborg fyrir sýningarskála ákveðinna þróunarverkefna.

 

Að auki hlutu þrír sýningarskálar sérstakar viðurkenningar, þar á meðal íslenski sýningarskálinn. Íslenski sýningarskálinn hlaut viðurkenningu fyrir "framúrskarandi framsetningu og samspil listamanns og arkitektastofu, Ólafs Elíassonar og Teiknistofu Hennings Larsen". Japanski sýningarskálinn og sýningarskáli Makedóníu fengu einnig viðurkenningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×