Erlent

Andlitslausi maðurinn er látinn

Markus Wolf, njósnaforingi.
Markus Wolf, njósnaforingi. MYND/AP

Austur-þýski njósnarinn Markus Wolf er látinn, áttatíu og þriggja ára að aldri. Lengst af kalda stríðinu var hann einn valdamesti maður Austur-Þýskalands. Hann var stundum kallaður "Andlitslausi maðurinn" vegna þess að leyniþjónustum vesturlanda tókst aldrei að ná mynd af honum.

Wolf stýrði utanríkisdeild hinnar illræmdu leyniþjónustu Stasi, og náði ótrúlegum árangri í að koma njósnurum sínum fyrir í háum embættum í Vestur-Þýskalandi. Meðal annars þurfti Willy Brandt, kanslari Vestur-Þýskalands að segja af sér árið 1974, þegar í ljós kom að persónulegur einkaritari hans var austur-þýskur njósnari.

Brandt var þá mitt í sinni "Ostpolitik" sem miðaði að því að sætta austur og vestur. Rétt áður en þýsku ríkin sameinuðust flúði Markus Wolf til Rússlands og bað um pólitískt hæli, en var gerður afturreka. Hann sneri þá aftur til Þýskalands, þar sem hann, eftir nokkurt þóf, var dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×