Enski boltinn

McFadden neitar sökum

James McFadden var rekinn í bað strax á 19. mínútu í gær
James McFadden var rekinn í bað strax á 19. mínútu í gær NordicPhotos/GettyImages

Enski knattspyrnudómarinn Graham Poll var enn og aftur í sviðsljósinu í gær þegar hann vísaði James McFadden hjá Everton af velli eftir aðeins 19 mínútur í bikarleiknum gegn Arsenal í gærkvöld. Poll gaf þá skýringu að McFadden hafi brúkað munn við sig, en leikmaðurinn vísar því alfarið á bug.

David Moyes fékk þær skýringar hjá fjórða dómara að McFadden hafi kallað Graham Poll svindlara fyrir dómgæslu sína, en McFadden segir ekkert til í þeim fullyrðingum.

Poll var mikið í sviðsljósinu í leik Tottenham og Chelsea helgina áður, þar sem hann vék John Terry fyrirliða Chelsea af velli og þóttu skýringarnar sem gefnar voru á þeim brottrekstri nokkuð loðnar. Annars gengur sú saga fjöllum hærra meðal stuðningsmanna Tottenham að Poll hafi vísað Terry af velli fyrir svívirðingar í garð vinar hans Ledley King hjá Tottenham - og sumir taka svo djúpt í árina að halda því fram að Terry hafi beitt hann kynþáttaníð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×