Forsætisráðherra Noregs knúsar bara konur. Þetta kom fram í afmæli menntamálaráðherra landsins, á dögunum.
Trond Giske, menntamálaráðherra, átti fertugsafmæli og fékk til sín margt góðra gesta. Meðal þeirra var Jens Stoltenberg, forsætisráðherra. Giske var í afmælisskapi, og þegar þeir heilsuðust breiddi hann út faðminn og laut fram til að leggja vanga að vanga.
Stoltenberg virtist bregða og hann steig til baka. Þegar blaðamenn leituðu skýringa á þessum viðbrögðum svaraði talsmaður Stoltenbergs því til að forsætisráðherrann knúsaði aðeins konur.
Norskur kynjafræðingur segir að engin knúshefð sé í Noregi, en það verði þó æ algengara að fólk faðmist þegar það hittist við sérstök tækifæri. Á sjöunda áratug síðustu aldar hefði þótt óeðlilegt að ráðherrar föðmuðust, en það sé ekki í dag. Nú sé það undir hverjum og einum komið hvernig hann heilsar.