Innlent

Mjög lítið af óæskilegum efnum í íslenskum fiski

Mjög lítið er af óæskilegum efnum í þeim fiski sem veiddur er á Íslandsmiðum samkvæmt niðurstöðum skýrslu Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins um vöktun á óæskilegum efnum í sjávarafurðum árið 2005.

Fram kemur í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu að magn díoxína og díoxínlíkra PCB-efna sé lágt miðað við leyfileg hámörk Evrópusambandsins. Styrkur þeirra í íslenskum fiski mældist ætíð minni en 15 prósent af leyfilegum styrk og í langflestum tilfellum var styrkurinn miklu minni eða innan við 2 prósent af leyfilegum styrk. Þá er styrkur varnarefna eins og plöntueiturs og skordýraeiturs enn minni eða innan við eitt prósent af leyfilegum styrk.

 

Þetta er þriðja skýrslan um aðskotaefni í íslensku sjávarfangi. Þær eiga að nýtast sem best framleiðendum, útflytjendum, stjórnvöldum og öðrum við kynningu erlendis á öryggi og heilnæmi íslenskra fiskafurða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×