Innlent

Baugur og félagar ljúka 77 milljarða króna yfirtöku á HOF

Baugur og meðfjárfestar greiða samtals um 77 milljarða króna fyrir bresku verslunarkeðjuna House of Fraiser en yfirtöku á öllu hlutfé félagsins lauk í dag. Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að tilboði upp á 148 pens á hlut hafi verið tekið í byrjun síðasta mánaðar en inni í heildarkaupverði er heildarfjármögnun skulda félagsins.

Að kaupunum koma einnig Don McCarthy sem jafnframt verður stjórnarformaður félagsins, FL Group, Tom Hunter, eigandi að West Coast Capital, Kevin Stanford, stofnandi Karen Millen, Halifax Bank of Scotland í gegnum fjárfestingarfélag sitt Uberior og að lokum Stefan Cassar, fyrrverandi fjármálastjóri Rubicon Retail en hann verður fjármálstjóri félagsins. Þá hefur John King, sem frá árinu 2003 hefur verið forstjóri bresku verslunarkeðjunnar Matalan, verið ráðinn forstjóri House of Fraser. Hann mun hefja störf í byrjun árs 2007.

 

House of Fraser selur bæði tískuvöru og smávöru fyrir heimilið en verslanir félagsins eru 61 talsins, allar í Bretlandi utan einnar sem er á Írlandi. Hjá fyrirtækinu vinna um átta þúsund manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×