Innlent

Ekki ástæða til íhlutunar vegna kvörtunar Tax Free

MYND/Hari

Samkeppniseftirlitið telur ekki ástæðu til íhlutunar vegna kvörturnar Tax Free á Íslandi vegna Global Refund á Íslandi. Bæði fyrirtæki endurgreiða virðisaukaskatt til erlendra ferðamanna hér á landi og kvartaði Tax Free árið 2003 yfir því að Global Refund misnotaði stöðu sína á markaði. Þetta kemur fram á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.

Taldi Tax Free á Íslandi að langvarandi taprekstur Global Refund á Íslandi væri brot á samkeppnislögum og að Global Refund reyndi með aukningu hlutafjár frá alþjóðlegu móðurfyrirtæki sínu að útrýma samkeppni á íslenkum markaði. Þessu hafnaði Global Refund og sagðist ekki hafa markaðsráðandi stöðu á markaðnum.

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir sérstakar aðstæður á hérlendum markaði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts til ferðamanna yrði ekki horft fram hjá því að Global Refund hefði ekki viðhaldið eða styrkt stöðu sína á markaði. Því væri ekki ástæða til að ætla að Global Refund hefði árið 2003 verið ráðandi á markaðnum.

Samkeppniseftirlitið telur þó ekki útilokað að Global Refund geti styrkt stöðu sína þannig að það teljist ráðandi á markaði og þá kunni málefni fyrirtækisins að koma til frekari skoðunar. Ætlar eftirlitið að óska eftir því að það verði upplýst um frekari fjárstuðning af hálfu móðurfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×