Erlent

Fyrsti kvenforseti fulltrúadeildarinnar

Nancy Pelosi fagnaði ákaft í nótt, enda mikil gleðitíðindi fyrir demókrata.
Nancy Pelosi fagnaði ákaft í nótt, enda mikil gleðitíðindi fyrir demókrata. MYND/AP

Eftir stórsigur demókrata í þingkosningum til fulltrúadeildar bandaríska þingsins má telja víst að þingmenn fulltrúadeildarinnar kjósi Nancy Pelosi forseta fulltrúadeildarinnar. Það verður í fyrsta skipti sem kona gegnir því embætti. Þá hlaut múslimi í fyrsta skipti kosningu á þingið, auk þess sem blökkumaður verður í annað skipti ríkisstjóri.

Nancy Pelosi hefur átt sæti í fulltrúadeildinni fyrir San Fransisco í Kaliforníu síðan árið 1987 og hefur verið þingflokksformaður síðan 2002, fyrst kvenna til að gegna því embætti í stjórnarandstöðu.

Hennar helstu áherslumál eru oft ívið lengra til vinstri en almenn stefna demókrata. Hún hefur stutt fjárhagsstuðning og skattalækkanir til hinna efnaminni sem og menntun og heilbrigðisþjónustu til allra í samfélaginu. Hún er sparsöm þegar kemur að hernaðarútgjöldum og kýs ávallt gegn rýmri heimildum til byssueignar. Hún styður rétt kvenna til fóstureyðinga, rannsóknir á stofnfrumum, aukin réttindi til innflytjenda og aukna umhverfisvernd.

Pelosi er af ítölskum ættum og á fimm börn. Hún er 66 ára gömul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×