Tvennt var flutt á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahús eftir að eldur kom upp í íbúð í Ferjubakkanum á ellefta tímanum. Um er að ræða karl og konu á sextugsaldri og náðu slökkviliðsmenn þeim út úr íbúðinni. Ekki fást upplýsingar um líðan þeirra að svo stöddu.
Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins barst tilkynning klukkan 22:16 um að eldur væri í húsinu. Búið er að slökkva eldinn og er verið að reykræsta. Rýma þurfti stigaganginn. Íbúar í húsinu hafast nú við í strætisvagni fyrir utan húsið og munu starfsmenn frá Rauða krossinum hlú að fólkinu. Ekki er vitað hver eldsupptök voru en íbúðin er stórskemmd eftir brunann.