Erlent

Mikil spenna í Bandaríkjunum vegna þingkosninganna

Republikanar í bandaríkjunum börðust í dag um á hæl og hnakka til þess að reyna að auka kjörsókn í þingkosningunum sem þar fara nú fram.

Ekki hafa enn borist neinar fréttir af kjörsókn, en reynslan frá fyrri árum er sú að þegar þingkosningar fara fram á ári sem ekki er jafnframt forsetakjör, er kjörsóknin um fjörutíu prósent.  En vegna þess hversu spennandi kosningarnar eru núna, er gert ráð fyrir að kjörsóknin verði jafnvel yfir meðallagi.

Í síðustu skoðanakönnunum höfðu demokratar ennþá forskot á republikana, og verður eitthvað óvænt að gerast til þess að þeir nái ekki meirihluta á þingi, að minsta kosti í fulltrúadeildinni.

Þeir verða þá í aðstöðu til þess að fyrirskipa rannsóknir á nánast öllu sem þeim dettur í hug, þar á meðal aðdraganda innrásarinnar í Írak. Það má því allt eins búast við að þau tvö ár sem George Bush á eftir í embætti, fari meira í það að verjast atlögum demokrata en að stjórna landinu.

Kjörstöðum verður lokað klukkan 11 í kvöld, að íslenskum tíma og verða útgönguspár þá birtar á vísir.is, auk þess sem nýjustu tölur verða birtar langt frameftir kvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×