Erlent

Sleppur Hamas við að draga í land ?

Frá Jerúsalem
Frá Jerúsalem

Palestinskur þingmaður segir að Mahmud Abbas, forseti, hafi fengið loforð um að vestrænar þjóðir muni hætta refsiaðgerðum, ef honum takist að mynda embættismannastjórn, með Hamas samtökunum.

Bandaríkin og Evrópusambandið hættu efnahagsaðstoð við palestinsku heimastjórnina, eftir að Hamas vann sigur í þingkosningum. Skilyrði fyrir að aðstoðin verði tekin upp aftur er að Hamas afneiti ofbeldi og viðurkenni tilverurétt Ísraelsríkis. Hamas hefur margoft lýst því yfir að slíkt komi ekki til greina.

Orðalag palestinska þingmannisins var svo loðið, að óljóst er hvort hann telur að með myndun embættismannastjórnar verði komist í kringum málið, þannig að Hamas þurfi ekki að draga í land.

Víst er að Ísraelar munu telja sig illa svikna, ef aðstoð verður tekin upp, við hvaða ríkisstjórn Palestínu sem er, án þess að Hamas verði við kröfum vesturlanda um að viðurkenna Ísrael og afneita ofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×