Erlent

Ísjakar undan strönd Nýja Sjálands

Yfirvöld á Nýja-Sjálandi hafa sent frá sér viðvörun til sjófarenda vegna mörg hundruð ísjaka undan strönd landsins. Töluverð hætta er talin geta skapast nærri jökunum þar sem veður á svæðinu mun versna.

Jakarnir fljóta sumir um á einni helstu siglingaleið Suðurhafa og mun það vera í fyrsta sinn sem það gerist. Jakanna varð fyrst vart fyrir helgi úr eftirlitsflugi nærri Auckland-eyjum. Stærsti ísjakinn er sagður vera um þrír ferkílómetrar að stærð og 130 metra hár.

Sérfræðingar segja óvenjulegt að sjá ísjaka á þessum slóðum, fjarri strandsvæðum suðurheimskautssvæðisins. Talið er að jakarnir bráðni flestir á leið sinni að landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×