Erlent

Þingmönnum synjað um kött gegn músaplágu

Yfirvöld hafa synjað beiðni breskra þingmanna um að fá kött, til þess að takast á við mikla músaplágu í þinghúsinu.

Mýsnar hrjá bæði háa og lága; þær skoppa um á milli skrifborða blaðamanna, jafnt og í testofu þinghússins. Mýsnar virðast telja sig eiga jafn mikinn rétt á að vera þarna og hver annar, og þær eru jafnvel hættar að fara í felur þótt hvæst sé á þær.

Einn blaðamaður sagðist hafa gefist upp á að borða samloku við tölvuna sína, því ef hann leggi hana frá sér til þess að skrifa eitthvað, sé óðara komin mús til þess að narta í samlokuna. Meindýraeyðar hafa verið kallaðir til, en þeir eru svartsýnir á að þeim takist að koma músunum fyrir kattarnef.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×