Enski boltinn

Það á að fangelsa svona aumingja

Claus Jensen var hetja Fulham gegn Everton í gær.
Claus Jensen var hetja Fulham gegn Everton í gær. Getty Images

Chris Coleman, knattspyrnustjóri Fulham, er öskuvondur út í þann sem henti smápeningi úr stúkunni í viðureign Fulham og Everton í gær sem hafnaði á höfði Claus Jensen, markaskorara Fulham í leiknum. Coleman segir viðkomandi vera heigul sem eigi heima í fangelsi.

"Svona framkoma er náttúrlega óþolandi og veldur mér miklum vonbrigðum. Almennt hefur hegðan áhorfenda í ensku úrvalsdeildinni verið í mikilli framför en inn á milli leynast svona heiglar og aumingjar. Ég vona að sá sem kastaði peningnum finnist. Það á að koma honum í burtu frá fótboltavellinum og henda honum í fangelsi," sagði Coleman ómyrkur í máli.

Jensen var ekki meint af peningnum en Coleman gerði ráð fyrir því að það hefði verið stuðningsmaður Everton sem henti honum úr stúkunni. Atvikið átti sér stað rétt eftir að Jensen hafði skorað markið sem reyndist ráða úrslitum í leiknum. David Moyes, stjóri Everton, vildi þó ekki útiloka að það hefði verið heimamaður sem var að verki.

"Ég er sammála Coleman um að það á að banna svona fólki að mæta á völlinn en það eru alveg jafn miklar líkur á að það hafi verið stuðningsmaður Fulham sem henti peningnum. Það getur vel verið að hann hafi verið að miða á einhvern minna leikmanna," sagði Moyes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×