Innlent

Stefna að álveri í Þorlákshöfn

Sveitarfélagið Ölfus hefur veitt vilyrði fyrir lóð undir áltæknigarð og álver vestan við Þorlákshöfn. Orkumagnið sem þetta tvennt krefst er jafnmikið og helmingsframleiðslugeta Kárahnjúkavirkjunar.

Bæjarstjóri Ölfuss segir að það hafa verið til skoðunar í um eitt ár að veita lóð undir áltæknigarð og sextíu þúsund tonna álver sem gengið er út frá að gæti verið tilbúið árið 2016. Staðsetningin er um sex til átta kílómetra vestan við Þorlákshöfn fyrir ofan væntanlegan Suðurstrandaveg.

Arctus ehf, félag í eigu Jóns Hjaltalíns Magnússonar verkfræðings og annarra hefur verið í viðræðunum við sveitarfélagið en í áltæknigarðinum á að fullvinna ál eins og bílapartahluti og fleira. Ólafur Áki segir hagkvæmt að framleiða bílahluti fyrir Evrópu því hægt sé að flytja þá inn hérðan á lægri tollum en frá Asíu. Vonir standa til að um þrjú til fjögur hundruð muni starfa álverið og tæknigarðinn.

Hann segir Ölfus hentugan stað því sveitarfélagið eigi nóg land og hér á landi sé orkuverð gott. En bæði tæknigarðurinn og álverið þurfa sína orku eða um 300 megavött.

Ef sú orkuþörf er sett í samhengi við annað er það um það bil helmingur þeirrar orku sem Kárahnjúkavirkjun getur framleitt og tæplega það sem fullgerð Hellisheiðarvirkjun á að geta framleitt. Ólafur segir samningaviðræður hafa verið í gangi við helstu orkuframleiðendur. Hvernig gengur að landa samningum segir Ólafur velta mikið á því hvort og hvenær farið verið í stækkun álversins í Straumsvík og gerð álvers í Helguvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×