Tvær palestínskar konur féllu og sex særðust þegar Ísraelsher hóf skothríð á mosku í bænum Beit Hanoun á Gaza-svæðinu í morgun. Hópur herskárra Palestínumanna hafði leitað þar skjóls og höfðu konurnar svarað kalli Hamas-liða og tekið sér stöðu milli moskunnar og hermannanna.
Byssumennirnir sátu í moskunni meðan umsátrið varði í 19 klukkustundi. Hermenn umkringdu moskuna. Hamas-samtökin kölluðu eftir stuðningi palestínskra kvenna í útvarpsávarpi og báðu þær um að taka sér stöðu við moskuna sem lifandi skildir. Um tvö hundruð konur komu á vettvang og tóku sér stöðu. Ísraelsher mun, að sögn vitna hafa skotið á konur þar sem þær hlupu að moskunni og stóðu við hana.
Atvikið mun nú í rannsókn hjá Ísraelsher en hermenn á vettvangi segjast hafa verið að svara skothríð frá Palestínumönnunum sem hafi falið sig meðal kvennanna. Sumir þeirra eru sagðir hafa dulbúið sig sem konur til að lauma sér út úr moskunni.
Ekki liggur fyrir hve margir herskáir Palestínumenn sem leituðu skjóls í moskunni. Sumir miðlar segja þá hafa verið allt að sextíu en aðrir að þeir hafi ekki verið fleiri en fimmtán.
Rúmlega 20 Palestínumenn og einn ísraelskur hermaður hafa fallið í áhlaupi Ísarela á Beit Hanoun sem hófst á miðvikudaginn. Ísraelsher segir áhlaupið gert til að koma í veg fyrir að herskáir Palestínumenn skjóti flugskeytum á ísraelskt landsvæði.
Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, og Ismail Haniyeh, forsætisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar, hafa báðir fordæmt aðgerðir Ísrelshers í Beit Hanoun og sagt þær fjöldamorð.
Fjölmargir Palestínumenn mótmæltu atburðinum í Beit Hanoun í morgun og komu sama á götum borga og bæja á Gaza-svæðinu í dag til að láta andstöðu sína í ljós.