Innlent

Hafa fengið á annan tug ábendinga í gegnum heimasíðu

Samkeppniseftirlitið hefur fengið á annan tug nafnlausra ábendinga í gegnum heimasíðu sína og nokkrar þeirra hafa orðið tilefni rannsókna hjá eftirlitinu. Forstjórinn segir að styrkja þurfi Samkeppniseftirlitið enn betur.

Á blaðamannafundi um þessa ársgömlu stofnun Samkeppniseftirlitið sagði Páll Gunnar Pálsson forstjóri að eftirlitið vildi skapa þannig umhverfi að enginn geti áhyggjulaus brotið samkeppnislög. Einnig var vikið að því á fundinum að fákeppni væri nánast reglan á íslenskum markaði og því kallaði svo lítill markaður á viðameira eftirlit en víða annars staðar.

Meðal þess sem eftirlitið vinnur út frá eru nafnlausar ábendingar frá fólki en talsvert hefur komið af þeim í gegnum heimasíðuna. Páll segir að mikilvægt sé að fá ábendingar til dæmis frá starfsmönnum fyrirtækja eða almenningi þegar menn telji að samkeppnislög séu brotin.

Aðspurður segir Páll Gunnar að Samkeppniseftirlitið sé nógu öflugt til að takast á við stórfyrirtækin hér á landi. Hann segir umhverfi eftirlitsins gott en þó megi gera betur. Lagaramminn hafi verið styrktur og stofnunin sömuleiðis en stofnunin telji að styrkja þurfi lagaumhverfið enn betur og heimildir stofnunarinnar líka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×